La Casa Pacifica, hús sem Richard Nixon fyrrum forseti Bandaríkjanna keypti árið 1969, hefur verið sett á sölulista í Kaliforníu í Bandaríkjunum.

Húsið, sem í tíð Nixon var gjarnan kallað „Hvíta húsið í vestri“, er einkar glæsilegt og um 1.400 fermetrar að stærð. Það er í núverandi eigu Gavin Herbert, fyrrum forstjóra og stofnanda lyfjafyrirtækisins Allergan, en hann keypti húsið fyrir 35 árum síðan til þess að iðka áhuga sinn á garðyrkju.

Þegar Nixon sagði af sér sem forseti Bandaríkjanna árið 1974 fluttist hann búferlum í húsið þar sem hann fékkst meðal annars við að skrifa endurminningar sínar. Hann flutti hins vegar til New York árið 1980 og seldi Herbert fasteignina.

Húsið er metið á 75 milljónir Bandaríkjadala eða um 10 milljarða íslenskra króna.

Myndasafn af húsinu má nálgast á vef Wall Street Journal.