Þrátt fyrir fall Skagamanna úr Úrvalsdeildinni í knattspyrnu munu Húsasmiðjan og Knattspyrnufélag ÍA halda samstarfi sínu áfram næstu tvö árin og var samningur þess efnis undirritaður í dag.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu.

Þar kemur fram að Húsasmiðjan hefur verið samstarfsaðili Knattspyrnufélags ÍA til margra ára og setur ekki fyrir sig að ÍA sé fallið úr efstu deild þegar kemur að því að framlengja samstarfið.

Samstarfssamningurinn hljóðar meðal annars upp á að Húsasmiðjan auglýsi á búningum ÍA og á velli félagsins.

„Við vildum staðfesta áframhaldandi samstarf okkar við ÍA strax til að sýna að stuðningur okkar við félagið er eindreginn,“ segir Steinn Logi Björnsson, forstjóri Húsasmiðjunnar í tilkynningunni.

„Við höfum átt gott samstarf við ÍA í gegnum tíðina og styðjum bæði í blíðu og stríðu við bakið á því góða íþrótta- og uppbyggingarstarfi sem félagið stendur fyrir á Akranesi. Þannig viljum við endurgjalda þann mikla stuðning og hollustu sem íbúar Akraness og nágrennis hafa sýnt Húsasmiðjunni í gegnum árin. Með góðri samstöðu liggur leiðin bara upp á við.“

„Við metum stuðning Húsasmiðjunnar mikils, enda eru öflugir bakhjarlar lykilatriði í rekstri knattspyrnufélags sem ætlar sér að vera í fremstu röð,“ segir Gísli Gíslason , formaður rekstrarfélags meistaraflokks Knattspyrnufélags ÍA jafnframt í tilkynningunni.

„Þótt gefið hafi á bátinn í sumar skiptir miklu máli fyrir okkur að fá áframhaldandi stuðning fyrirtækja á borð við Húsasmiðjuna, sem gera okkur kleift að byggja upp og koma tvíefldir til leiks næsta sumar.“