Tvö frumvörp ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttingu landsmanna eiga að ná til allt að 100 þúsund heimila og nemur umfang þeirra um 150 milljörðum króna. Ríkisskattstjóri sér um umsóknarferlið sem verður einfalt og aðgengilegt á vef á vegum embættisins. Opnað verður fyrir umsóknir þegar frumvörpin eru orðin að lögum frá Alþingi, að því er segir í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu .

Hámarksfjárhæð niðurfærslu verðtryggðra húsnæðislána verður upp á 4 milljónir króna á heimili. Til frádráttar koma fyrri opinber úrræði til lækkunar höfuðstóls sem lántakandi hefur þegar notið. Leiðrétting er að frumkvæði lántaka og þarf að sækja um hana hjá ríkisskattstjóra á tímabilinu 15. maí til 1. september 2014.

Frumvörpin eiga bæði að lækka húsnæðisskuldir heimila í landinu og auðvelda þeim sem ekki eiga íbúð að kaupa húsnæði. Annars vegar er um að ræða leiðréttingu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána og hins vegar skattafslátt vegna séreignarlífeyrissparnaðar. Með lækkuninni léttist greiðslubyrði heimilanna og ráðstöfunartekjur þeirra aukast.

Í tilkynningunni segir að unnt verði að ráðstafa séreignarlífeyrissparnaði til lækkunar höfuðstóls og býðst sú leið öllum þeim sem skulda húsnæðislán sem veita rétt til vaxtabóta. Einnig býðst fólki að nýta séreignarsparnað til fasteignakaupa og njóta samsvarandi skattafsláttar, en það getur meðal annars nýst fjölskyldum í leiguhúsnæði.

Gert er ráð fyrir að höfuðstólslækkunin hefjist um leið og umsóknartímabili lýkur.