Standard & Poor´s Case-Shiller húsnæðisvísitalan, sem mælir verðþróun í 20 borgum Bandaríkjanna, lækkaði um 15,3% í aprílmánuði frá því á sama tíma fyrir ári.

Þetta er mesta lækkun vísitölunnar á milli ára frá því að mælingar hófust árið 2000, að því er fram kemur í frétt Wall Street Journal.

Jafnframt er þetta í fyrsta skipti sem húsnæðisverð lækkar í öllum borgunum tuttugu á milli ára.

Á milli mánaða lækkaði S&P Case-Shiller vísitalan um 1,4% frá því í mars. Húsnæðisverð lækkaði mest í Miami og Phoenix, þar sem lækkunin nam meira en 3% á milli mánaða.

Húsnæðisverð hefur nú lækkað um 17,8% í Bandaríkjunum á landsvísu frá því að verðið stóð hæst fyrir tveimur árum.