Á Vegvísi Landsbankans segir að húsnæðisverð í Svíþjóð, Noregi, Danmörku og á Bretlandi hafi lækkað undanfarið sem er viðsnúningur frá því sem verið hefur síðustu ár. Ástæður lækkana eru mismunandi eftir löndum en eiga það sameiginlegt að verð á lánsfé hefur hækkað almennt á mörkuðum. Markaðir þessir eru um margt líkir íslenskum fasteignamarkaði að því leyti að þeir hafa einkennst af gífurlegum uppgangi síðastliðinn áratug.


Bretland: London leiðir lækkun
Á Bretlandi lækkaði fasteignaverð í október en það er í fyrsta skipti í tvö ár sem verð lækkar milli mánaða. Í London lækkaði verðið mest og þá sérstaklega í fjármálahverfi borgarinnar þar sem lækkunin nam 0,5%. Á landsvísu lækkaði verð um 0,1%. Fréttaveita Bloomberg segir vísbendingar um að vöxtur á fasteignaverði sé farinn að hjaðna, ekki síst vegna aukinnar skuldsetningar neytenda sem nemur 1.400 milljörðum punda. Þá er talið að fjármálakreppan í kjölfar ótryggra lána í Bandaríkjunum verði til þess að fjármálafyrirtæki í London og annars staðar í Evrópu neyðist til að fækka störfum og lækka bónusgreiðslur en uppgangur fjármálalífsins í London hefur verið helsti drifkraftur hækkunar fasteignaverðs.

Noregur: Stefnir í lækkun á ársgrundvelli
Ef fer sem horfir í Noregi mun verð á íbúðum lækka á ársgrundvelli en þar í landi hefur fasteignaverð lækkað fjóra mánuði í röð. Í október lækkaði fasteignaverð um 1,2% milli mánaða sem samsvarar 0,6% lækkun eftir árstíðaleiðréttingu. Allajafna er mánuðurinn sterkur í fasteignasölu og því óljóst um ástæður þessa. Meðaltími fasteigna í sölu var 24 dagar í október sem er þremur dögum lengur en í mánuðinum á undan þótt það teljist nokkuð gott í sögulegum samanburði.
Væntingar eru um lækkandi verð og því eru seljendur fljótari til að samþykkja lág tilboð en þeir áður voru. Því þykja ekki líkur á að fasteignaverð í Noregi hækki á næstunni.

Svíþjóð: Íbúðir lækka, einbýli stendur í stað
Í fyrsta skipti í langan tíma lækkar íbúðaverð í Svíþjóð þótt verð einbýlishúsa sé stöðugt. Til að mynda lækkaði verð í Stokkhólmi um 3% frá því að vera í hámarki í ágústmánuði. Ólíkt öðrum mörkuðum sem hér er fjallað um eiga lækkanir sér fremur einhliða skýringu en hún er nýleg breyting á skattalögum. Væntingar neytenda eru þó í átt að lækkun þar sem 44% búast við verðlækkunum á fasteignamarkaði á móti 33% sem búast við verðhækkunum. Samsvarandi hlutföll fyrir mánuði voru 20% með verðlækkunum og 56% með verðhækkunum.

Vísitala neysluverðs hækkaði um hálft prósentustig frá september til október en það er umtalsvert yfir væntingum greinenda. Þykir þetta benda til þess að seðlabanki Svíþjóðar þurfi að hækka stýrivexti enn frekar, en í lok október voru þeir hækkaðir um 25 punkta í 4%. Þykir sú hækkun hafa haft áhrif til lækkunar á fasteignamarkaði auk þess sem órói á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og ástand á fasteignamörkuðum í Danmörku og Noregi hafa áhrif á væntingar neytenda.

Danmörk: Óttast lækkun
Danskur húsnæðismarkaður er viðkvæmur um þessar mundir og er farið að bera ástandið saman við það þegar hann féll á níunda áratug síðustu aldar og bankar töpuðu miklu á lánastarfsemi. Slíkur samanburður er samt sem áður nokkuð hæpinn þar sem almennt er búist við mjúkri lendingu eða hægri verðlækkun. Samt sem áður þykja bankar hafa verið helst til lánaglaðir og veldur það nokkrum áhyggjum meðal sérfræðinga.

Mikil þensla hefur verið í Danmörku sem sýnir sig í gífurlegri aukningu í umsóknum um atvinnuleyfi. Samkvæmt tölum hagstofunnar í Danmörku fjölgaði umsóknum um 84% á nýliðnum ársfjórðungi miðað við fjórðunginn þar á undan. Fyrstu níu mánuði ársins fjölgaði umsóknum um 57% samanborið við sama tímabil árið á undan.

Þá virðast útflutningsfyrirtæki í Danmörku ekki finna jafnmikið fyrir lækkun dollars og mörg önnur útflutningsfyrirtæki í Evrópu. Þvert á spár jókst útflutningur til Bandaríkjanna um rúm 43% í september. Reyndar dró úr útflutningi í ágúst um 33% frá fyrri mánuði. Helstu ástæður fyrir því hversu vel útflutningsfyrirtæki standa er að þau eiga fyrst og fremst í viðskiptum með óverðteygnar vörur, s.s. lyf og tæki til raforkuframleiðslu.