Þingmenn Bjartrar framtíðar hafa lagt fram frumvarp á Alþingi sem miðar að því að einfalda tollalög þannig að hönnuðir þurfi ekki að borga há gjöld vegna sýnishorna eða frumgerða sem þeir fá send að utan.

„Hönnuðir hafa á undanförnum árum átt í miklum erfiðleikum með vöruþróun og framleiðsluferlið á þeim vörum sem þeir láta framleiða fyrir sig utan landsteinana," segir í greinargerð frumvarpsins . „Þetta á einkum við í vöruþróunarferlinu sjálfu. Þá eiga sér stað mikil samskipti við erlenda framleiðendur sem senda sýnishorn vörunnar til hönnuðarins sem staddur er hér á landi, til samþykkis eða til frekari vinnu. Þannig eru sýnishorn frá framleiðanda aðeins vinnugögn í framleiðsluferli en ekki endanlega varan sjálf."

Bent er á að í tollalögum sé kveðið á um að sendingar sem innhalda sýnishorn verslunarvara séu tollfrjálsar ef verðmæti þeirra sé óverulegt eða þær innihaldi sýnishorn sem hafi verið gerð ónothæf sem almenn verslunarvara. Gallinn sé hins vegar sá að í reglugerð séu sýnishorn sem kosti meira en 5 þúsund krónur talin veruleg verðmæti.

„Óhætt er að segja að fylgni við framangreint hafi valdið íslenskum hönnuðum umtalsverðri vinnu og kostnaði," segir í greinargerðinni. „Með frumvarpinu er stefnt að einföldun. Sú meginbreyting er lögð til að ekki verði lengur miðað við verðgildi vöru þegar ákvarðað er hvort hún eigi að teljast tollfrjálst sýnishorn heldur aðeins hvort eðli hennar sé slíkt að hún geti talist frumgerð eða sýnishorn. Sú breyting mun að sjálfsögðu ekki leysa hönnuði undan því að þeir tryggi rétta skráningu í tollskjölum."