Alls 79% landsmanna telja að verðbólga muni aukast ef aðrar starfsstéttir fá sambærilegar launahækkanir og læknar sömdu um. 18,4% telja að verðbólgan myndi standa í stað og 2,6% að hún myndi minnka. Nánast sambærilegar niðurstöður fengust þegar fólk var spurt hvort það teldi að verðtryggðar skuldir myndu hækka eða lækka ef allir fengju sömu launahækkanir og læknar. 79,1% telja að þær muni hækka.

Þetta kemur fram í netkönnun  sem Capasent gerði fyrir Samtök atvinnulífsins.

Í könnuninni var einnig spurt: Hversu sammála eða ósammála ert þú eftirfarandi fullyrðingu? Ekki verði samið við aðrar starfsstéttir um sambærilegar launahækkanir og læknar sömdu um. Niðurstaðan er sú að 49,2% eru sammála, 38,1% ósammála og 12,7 segjast hvorki sammála né ósammála fullyrðingunni.

Netkönnunin var gerð 15 - 29. janúar. Úrtak var 2.900 manns á öllu landinu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Capacent Gallup. Fjöldi svarenda var 1.722 og þátttökuhlutfall 59,4%.