Bernand Bernanke hagfræðiprófessor við Princeton hefur verið skipaður nýr seðlabankastjóri Bandaríkjanna. Hann var í júní síðastliðnum skipaður formaður nefndar efnahagslegra ráðgjafa ríkisstjórnarinnar og hefur því verið aðalefnahagsráðgjafi hennar.

Bernanke kenndi lengi hagfræði við Princeton áður en hann tók sæti í vaxtaákvörðunarnefnd seðlabankans bandaríska. Hann er leiðandi talsmaður verðbólgumarkmiðs sem gengur út á að Seðlabankar eigi að setja sér verðbólgumarkmið og miða aðgerðir sínar í vaxtamálum fyrst og fremst útfrá því að halda verðbólgu sem næst þessu markmiði. Í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í síðustu viku kom fram að Bernanke sker sig nokkuð frá hugmyndafræði Greenspans sem telur að Seðlabankar eigi stöðugt að reyna að fá markaðinn til að geta sér til um hversu Seðlabankinn muni berjast hart gagnvart verðbólgu.

Verðbólgumarkmiðið hefur notið sífellt meiri hylli og er nú orðin algengasta peningamálastefna seðlabanka í heiminum í dag. Einn helsti kostur þessarar stefnu hefur verið að með henni hefur náðst mikill árangur í að lækka verðbólguvæntingar meðal almennings.

Í fréttaskýringu Viðskiptablaðsins var því spáð að fjármálamarkaðir mundu taka vel í ráðningu Bernanke en jafnframt bent á að einhverjar óánægjuraddir gætu heyrst úr röðum Repúblikana sem líta ekki á hann sem sinn mann.

Greenspan hefur sinnt embætti seðlabankastjóra Bandaríkjann síðan árið 1987. Skoðun Greenspans hefur verið sú að það sé mjög erfitt fyrir Seðlabanka að reyna með aðgerðum sínum að koma í veg fyrir eignaverðsbólur og deilir Bernanke þessari skoðun Greenspans.

Skipun Bernanke er háð samþykki öldungadeildarinnar.