„Við munum væntanlega tala við umsækjendur í næstu viku,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður stjórnar Borgarleikhússins. Frestur til að sækja um stöðu leikhússtjóra Borgarleikhússins rann út á þriðjudag, þ.e. 11 febrúar síðastliðinn. Eins og kunnugt er var Magnús Geir Þórðarson , sem áður gegndi stöðunni, ráðinn útvarpsstjóri RÚV í lok janúar.

Þorgerður Katrín vill ekki gefa upp hversu margir sóttu um stöðu leikhússtjóra Borgarleikhússins. Ekki verða nöfn umsækjenda birt. Hún segir nokkuð verk af fara yfir umsóknir.

„Við báðum umsækjendur um að lýsa sýn sinni um framtíðarrekstur Borgarleikhússins í ekki fleiri en 800 orðum. Við erum í lestri núna og munum síðan koma okkur saman um það hverja við köllum í viðtöl,“ segir Þorgerður Katrín og býst við að það verði í næstu viku.