Viðskiptablaðið hafði samband við nokkra einstaklinga í mismunandi greinum, spurði hvernig þeim fannst árið og hvað þeir vilja sjá á nýju ári. Hér svarar Hanna Katrín Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðissviðs hjá Icepharma.

Hvernig var árið? Þrátt fyrir ýmis jákvæð teikn erum við enn að upplifa tíma stöðnunar og óvissu. Það verður því miður að segjast eins og er að uppbyggingarstarfið hefur ekki verið eins markvisst og vonir stóðu til og það hefur gengið hægt að koma hjólum atvinnulífsins í gang aftur, með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum fyrir allan þorra landsmanna.

Hvað var vel gert? Hrósið fer til fyrirtækja og heimila í landinu sem halda flest sjó þrátt fyrir auknar álögur, minni ráðstöfunartekjur og óljósar framtíðarhorfur. Þá er gaman að fylgjast með kraftinum í greinum eins og ferðaþjónustu, menningu og hönnun ýmiskonar. Það er óskandi að stjórnvöld beri gæfu til að hlúa að þessum vaxtarbroddum.

H vað var slæmt? Hún er slæm þessi stöðuga áhersla á niðurskurð útgjalda til skamms tíma á kostnað almennrar hagkvæmni, forgangsröðunar og stefnumótunar til lengri tíma. Eins verð ég að nefna þreytandi og oft niðurbrjótandi orðræðu þeirra sem virðast ekki mega hugsa til þess að hér komist aftur friður á.

Hvað viltu sjá á nýju ári? Það er mikill þrýstingur frá íslenskum almenningi að ráðamenn vinni í sátt að hagsmunum þjóðarinnar. Það er kominn tími til að líta fram á veginn og á þau tækifæri sem þar bjóðast og við getum nýtt okkur. Alþingi samþykkti að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið og það er mikilvægt að það sé vandað til þeirrar vinnu svo að þjóðin fái sem hagstæðastan samning til að taka afstöðu til.