Bernard Arnault er ríkasti einstaklingur heims samkvæmt milljarðamæringalista viðskiptatímaritsins Forbes. Auðæfi hans eru metin á 218,5 milljarða dala á lista viðskiptatímaritsins sem uppfærist í rauntíma. Til samanburðar eru auðæfi hins skrautlega Tesluforstjóra Elon Musk, sem situr í öðru sæti listans, metin á 184,2 milljarða dala eins og staðan er í dag.

Arnault, sem verður 74 ára í næsta mánuði, er stofnandi, stjórnarformaður og forstjóri lúxusvörumerkjaveldisins LVMH Moet Hennessy Louis Vuitton.

Þegar horft er til veltu ber LVMH af í lúxusiðnaðinum. Á síðasta ári velti félagið 79,2 milljörðum evra. Hagnaður tímabilsins nam 21,1 milljarði evra. Markaðsvirði þess nemur í dag um 408 milljörðum evra.

Undir hatti LVMH eru alls 75 þekkt lúxusvörumerki sem eru áberandi í áfengisframleiðslu, skartgripaframleiðslu, hótelum og tísku. Arnault hefur stýrt LVMH frá árinu 1989 en hann stofnaði félagið tveimur árum áður ásamt Alain Chevalier og Henry Racamier.

En hvernig hefur Arnault tekist að byggja upp þetta risaviðskiptaveldi sem gerir hann að ríkasta manni heims? Í meðfylgandi myndbandi frá Wall Street Journal er þeirri spurningu svarað. Auk þess er komið inn á það hvernig hann hyggst tryggja það að viðskiptaveldið verði áfram undir stjórn fjölskyldu hans eftir að hann sest í helgan stein. Arnault á fimm börn sem öll gegna veigamiklum hlutverkum innan lúxusvörumerkjasamstæðunnar.