Fyrir rúmum átta árum síðan hringdi breski kaupsýslumaðurinn Frank Cohen í bandaríska myndlistarmanninn Jeff Koons. Erindi símtalsins var að fá Koons til að gera splunkunýtt listaverk fyrir listasafn Cohens, Dairy Art Center, sem hann hafði í smíðum í Lundúnum. Þegar Cohen fékk það loksins afhent fyrr á þessu ári kom í ljós að verkið, “Blöðruapi (appelsínugulur)” (e. “Balloon Monkey (Orange)”), var of stórt fyrir safnið. Þess vegna ákvað Cohen að selja verkið og verður það nú á meðal helstu listaverka á samtímalistaverkauppboði uppboðshússins Christie´s í New York þann 12. nóvember næstkomandi.

Uppsett verð fyrir höggmyndina er á bilinu tuttugu til þrjátíu milljónir dollara. Frá því í júlí á síðasta ári og til júíl í ár hafa 52 verk eftir Jeff Koons verið seld á uppboði fyrir rúmar 115 milljónir evra og er hann því annar verðmætasti samtímalistamaður þessa árs út frá uppboðsniðurstöðum samkvæmt nýlegri úttekt Artprice.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .