Úrvalsvísitalan [ OMXI15 ] lækkaði um 2% í dag og stóð við lok markaða í 4.239 stigum samkvæmt Markaðsvakt Mentis. Þá hefur dregið lítillega úr veikingu krónunnar frá því í morgun.

Á myndinni hér til hliðar má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga en aðeins tvö félög, Icelandair Group [ ICEAIR ] og Marel [ MARL ] hækkuðu í dag.

Úrvalsvísitalan lækkaði strax við opnun klukkan tíu í morgun og hafði eftir um hálftíma opnun lækkað um 1,7%. Þó tók hún örlítið við sér en fór aldrei upp fyrir 1,5% lækkun. Síðasta klukkutímann hafði hún lækkað um 1,8% og á síðustu mínútum lækkaði hún enn frekar og hafði sem fyrr segir lækkað um 2% þegar lokað var fyrir viðskipti.

Athygli vekur mikil lækkun Century Aluminum [ CENX ] en félagið hækkaði um 7,6% í gær, langmest allra félagga í Kauphöllinni. Annað er upp á teningnum í dag en félagið lækkaði um 15,5% sem er margfalt meiri lækkun en á öðrum félögum. Þá tilkynnti félagið um aukið hlutafjárútboð í dag eins og áður hefur komið fram.

Velta með hlutabréf var um tveir milljarðar í dag. Þar af voru rúmlega 460 milljónir með bréf í Landsbankanum [ LAIS ], 440 milljónir með bréf í Glitni [ GLB ] og um 420 milljónir með bréf í Kaupþing [ KAUP ]. Þá var velta mér bréf í Century Aluminum um 290 milljónoir en nokkuð minni velta er með hlutabréf í öðrum félögum.

Krónan hefur veikst um 0,7% frá opnum gjaldeyrismarkaða en hafði um tíma í morgun veikst um allt að 1,7%. Gengisvísitalan stendur nú í 154 stigum en gjaldeyrismarkaðir eru enn opnir.