Úrvalsvísitalan lækkaði í dag um 1,5% og stóð við lok markaða í 350 stigum samkvæmt Markaðsvaktinni.

Þar munaði mestu um 33,3% lækkun Exista.

Þá hefur Exista, sem verður tekið úr viðskiptum í Kauphöllinni í dag eins og áður hefur komið fram lækkað um 99,8% frá áramótum. Hver hlutur í Exista er því metinn á 0,04 við brotthvarf félagsins úr Kauphöllinni.

Í upphafi árs var hver hlutur metinn á 18,55 en hæst fór gengi Exista í Kauphöllinni í 40,25 þann 19. júlí 2007, sama dag og Úrvalsvísitalan náði hámarki eða 9.014 stigum.

Viðskipti voru stöðvuð með bréf í Exista, ásamt öllum öðrum fjármálafyrirtækum, þann 6. október síðastliðinn og heimiluð á ný þann áttunda þessa mánaðar. Þann dag lækkaði félagið um 97%, úr 4,62 á hvern hlut í 0,19.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,9% á föstudaginn og 5,8% í síðustu viku. Þá hélt lækkunin áfram strax við opnun í morgun og um kl. 11 í hafði hún lækkað um tæp 2%.

Á markaðssíðu vb.is má sjá helstu breytingar einstakra félaga. Ásamt Exista leiddi Straumur hækkanir dagsins þegar félagið lækkaði um 6,7%.

Velta með hlutabréf var um 360 milljónir króna en þar af voru rúma 161 milljón króna með bréf í Marel.

Þá er velta fyrir rúmar 100 milljónir króna með bréf í Össur og rúmar 92 milljónir króna með bréf í Straum.