Úrvalvísitalan lækkaði um 1,76% og er 5.337,52 stig við lok dags, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni.

Þau uppgjör sem búið er að birta hafa flest verið yfir væntingum greiningaraðila, samkvæmt greiningardeild Glitnis, en þrátt fyrir það hefur úrvalsvísitalan lækkað um hátt í 8% frá birtingu þeirra. Fjórum dögum fyrir birtingu fyrstu uppgjöranna hækkaði úrvalsvísitalan um 7% en eftir það gengu yfir lækkanir yfir markaðinn.

Greiningardeild Glitnis leiðir að því líkum að þeir fjárfestar sem hafa verið í söluhug hafi búist við góðum uppgjörum og gripið gæsina á meðan hún gafst og selt eftir skarpar hækkanir, strax í kjölfar birtinga á uppgjörunum.

?Þar sem eftirspurn eftir hlutabréfum virðist heldur veik um þessar mundir leiddi þessi söluþrýstingur til umræddrar lækkunar hlutabréfaverðs," segir greiningardeildin.

Flaga Group hækkaði í dag um 3,23%, Nýherji hækkaði um 1,43% og Vinnslustöðin hækkaði um 1,16%

FL Group lækkaði um 4,30%, Dagsbrún lækkaði um 3,83%, Landsbankinn lækkaði um 3,29%, Mosaic Fashions lækkaði um 2,79% og Marel lækkaði um 2,63%.

Gengi krónunnar styrktist um 1,59% og er gengisvísitala krónunnar 127,91 stig, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöll Íslands.