Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,26% og er 6.319 stig við lok dags, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Veltan nam 40.550 milljónum króna.

Fjárfestingarfélagið Grettir jók eignarhlut sinn í Avion Group í 34,37% úr 11,53%, samkvæmt flöggun til Kauphallarinnar og nemur fjárfestingin 14,6 milljörðum króna. Um er að ræða 409.581.326 hluti á genginu 35,61, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Þetta eru stærstu viðskipti dagsins.

Næststærstu viðskiptin nema 13.786 milljónum króna, einnig með bréf Avion Group og einnig á genginu 35,61. Ekki hefur verið tilkynnt til Kauphallarinnar hver standi þeim að baki.

Þá keypti FL Group í Glitni fyrir 5,6 milljarða króna á genginu 23,5.

Glitnir birti uppgjör sitt fyrir þriðja ársfjórðung í morgun og hækkuðu bréf bankans um 2,17% í dag, Avion Group hækkaði um 1,4%, Straumur-Burðarás hækkaði um 1,22%, Bakkavör Group hækkaði um 1% og Icelandic Group hækkaði um 0,64%.

Flaga Group lækkaði um 5,09% í viðskiptum sem nema samtals um tíu milljónum króna og hefur félagið lækkað um 27,27% síðustu fjórar vikur, Dagsbrún lækkaði um 1,42% í tólf milljón króna veltu, Kaupþing banki lækkaði um 1,42%, Landsbankinn lækkaði um 1,16% og Atorka Group lækkaði um 0,95%.

Gengi krónu styrktist um 0,79% og er 119 stig við lok dags.