Úrvalsvísitalan (OMXI6) lækkaði um 0,2% í dag og stóð við lok markaða í 634 stigum samkvæmt Markaðsvaktinni.

Vísitalan hækkaði um 0,2% í gær en tók að lækka fljótlega eftir opnun markaða í morgun og hafði um tíma 1,9% um klukkutíma eftir opnun. Þá fóru markaðir að hækka lítillega aftur en náði þó aldrei aftur núlllinu.

Á markaðssíðu vb.is má sjá helstu breytingar einstakra félaga í Kauphöllinni en Marel hækkaði um 7,1% eftir að stjórn félagsins staðfesti í morgun að félagið hefði átt í óformlegum viðræðum við erlenda aðila; banka, fjárfestingarsjóði og stærri iðnfyrirtæki um hugsanlega aðkomu þeirra að hluthafahópi Marels.

Össur leiddi hins vegar lækkanir dagsins en félagið lækkaði um 8,2%. Þá lækkaði Atlantic Airways um 1,9% og Föroya banki um 0,8%.

Velta með hlutabréf var rúmar 300 milljónir króna en þar af voru tæpar 229 milljónir með bréf í Marel.

Þá var velta fyrir rúmar 57,5 milljónir króna með bréf í Össur og um 8,5 milljónir króna með bréf í Icelandair Group en mun minni velta var með bréf í öðrum félögum.

Velta með skuldabréf var mun minni en venjulega og nam tæpum 5 milljörðum króna.