Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sækir hátíðarfund leiðtoga Barentsráðsins (Barents Euro-Arctic Council) í dag og á morgun. Fundurinn er haldinn í Kirkenes í Noregi þar sem fastaskrifstofa ráðsins er og samstarfsyfirlýsing Barentsráðsins var undirrituð þar fyrir 20 árum.

Í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að Kirkenesyfirlýsingin hafi markað upphaf sérstaks samstarfs á vettvangi ríkisstjórna á þessu svæði, en einnig svæðissamstarf á Barentssvæðinu milli þeirra þrettán landsvæða sem því tilheyra. Samtök frumbyggja á svæðinu taki þátt í störfum bæði stjórnvaldshlutans og svæðisráðanna, sem ráðgefandi aðili.

Noregur gegnir nú formennsku í Barentsráðinu og er forsætisráðherra Noregs gestgjafi fundarins. Önnur aðildarríki Barentsráðsins eru Rússland, Svíþjóð, Finnland, Danmörk og Ísland, auk þess sem Evrópusambandið á aðild að ráðinu.