Breytingar verða gerðar á stjórntækjum peningastefnunnar á næstu vikum og mánuðum. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði á vaxtaákvörðunarfundi bankans það hafa verið rætt innan peningastefnunefndar á undanförnum fundum að ýta breytingunum úr vör.

Már vildi ekki fara nánar út í málið en sagði að á fundunum hafi verið rætt nokkuð um bindiskylduna og fleira tengt stjórntækjum bankans.

„Bankinn hefur umboð til að ráðast í breytingar á þessu, þær miða að því að bæta stjórntækin, þ.e. að tækin haldi vöxtunum betur þar sem við viljum hafa þá,“ sagði Már en ítrekaði að breytingarnar verði vel kynntar fjármálafyrirtækjum áður en þær taki gildi.