Íbúðalánasjóður hefur ákveðið að afskrifa 73 milljónir króna af skuldum Bolungarvíkur vegna félagslegra íbúða en 73 milljónir til viðbótar verða frystar til eins árs og þá skoðað hvort þær verða afskrifaðar.

Þetta kemur fram á vef Bæjarins Besta á Ísafirði en Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EMFS) fór fram á að Íbúðalánasjóður aflétti 146 milljón króna skuld vegna félagslegra íbúða í Bolungarvík.

EMFS fór einnig fram á að Sparisjóður Bolungarvíkur endurskoðaði vaxtakjör afturvirkt á viðskiptareikningi Bolungarvíkur og/eða felldi niður lán, allt að 15 milljónir króna, ásamt því að umhverfisráðuneytið endurgreiði Bolungarvík 24 m.kr. sem sveitarfélagið hefur lagt til Náttúrstofu Vestfjarða í Bolungarvík umfram það sem samningurinn við ráðuneytið segir til um.

Í frétt Bæjarins Besta kemur fram að ekki sé vitað hvort Sparisjóðurinn eða umhverfisráðuneytið hafi orðið við þessum kröfum.

Þá kemur jafnframt fram að Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og bæjarstjórn Bolungarvíkur hafa undirritað samning um áframhaldandi samstarf.

Samningurinn gerir m.a. ráð fyrir að dregið verið úr rekstrarútgjöldum á árinu 2010 um 5%, miðað við fyrirliggjandi áætlun þess árs.

Sjá nánar vef Bæjarins Besta.