Íbúðalánasjóður hefur í kjölfar útboðs á íbúðabréfum ákveðið að útlánavextir sjóðsins breytist. Þannig lækka útlánavextir íbúðalána með uppgreiðsluákvæði úr 4,95 í 4,7%. Þá eru 5,20% vextir á íbúðalán án uppgreiðsluákvæðis.  Hin nýja vaxtaákvörðun tekur gildi í dag, 12. maí 2009.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íbúðalánasjóð. Þá verður vaxtaálag vegna rekstrar 0,25%, vegna útlánaáhættu 0,20% og vegna uppgreiðsluáhættu 0,50%.

Samkvæmt lögum um húsnæðismál og reglugerð um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf getur stjórn Íbúðalánasjóðs ákvarðað vexti ÍLS-veðbréfa með hliðsjón af fjármögnunarkostnaði í reglulegum útboðum íbúðabréfa og með vegnum fjármagnskostnaði vegna uppgreiddra lána, að viðbættu vaxtaálagi.

Vaxtaákvörðun Íbúðalánasjóðs byggir á ávöxtunarkröfu í útboði íbúðabréfa sem haldið var 11. maí s.l. ásamt vegnum fjármagnskostnaði uppgreiðslna ÍLS-veðbréfa.  Vegnir vextir í útboðinu og uppgreiddra ÍLS-bréfa eru 4,24%.