Íbúar Sandgerðis þiggja langmestu atvinnuleysisbæturnar. Að meðaltali þiggur hver íbúi sveitarfélagsins rúmlega 190.000 kr. í atvinnuleysisbætur á ári. Næstir á eftir koma íbúar í Vogunum, en þeir veita viðtöku rúmlega 165.000 kr. hver á ári að meðaltali. Þetta kemur fram í upplýsingum frá Ríkisskattstjóra, en upplýsingarnar miðast við álagningarskrár frá 2013 og fjárhæðirnar miðast því við árið áður.

Áberandi lægstar atvinnuleysisbætur þiggja íbúar Skagabyggðar, rúmlega 16.800 kr. á mann á ári. Hafa ber í huga að þar búa eingöngu rúmlega 100 manns. Næstir á eftir koma íbúar Skaftárhrepps þar sem meðalmaðurinn þiggur rúmar 19.000 kr. á ári í bætur.

Hafnfirðingar þiggja mest á höfuðborgarsvæðinu

Íbúar Reykjavíkur þiggja rúmlega 92.000 kr. hver í atvinnuleysisbætur á ári að meðaltali. Kópavogsbúar þiggja örlítið meira, eða 94.000 kr. á ári. Hafnfirðingar þiggja mest af íbúum höfuðborgarsvæðisins, eða 110.000 krónur á ári. Fyrir sameiningu við Garðabæ þáðu Álftnesingar að meðaltali 104.000 krónur hver á ári. Mosfellingar þiggja að meðaltali tæpar 90.000 kr. á ári.

Lægstu atvinnuleysisbæturnar á höfuðborgarsvæðinu þiggja íbúar Seltjarnarness, eða rúmlega 52.000 krónur á ári hver. Fyrir sameiningu við Álftanes þáði meðal Garðbæingur tæpar 75.000 krónur í bætur á ári.