Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) hefur selt Íbúðalánasjóði sértryggð skuldabréf með veði í húsnæðislánum útgefin af Arion banka fyrir 70 milljarða króna. Kaupsamningurinn er gerður með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og endanlegt samþykki stjórnar, að því er segir í tilkynningu.

„Viðskiptin munu hafa jákvæð áhrif á rekstur Íbúðalánasjóðs, en með kaupunum er lausafé sjóðsins sem safnast hefur upp vegna uppgreiðslna og leiðréttingar húsnæðislána síðustu missera, fjárfest í verðtryggðum vaxtaberandi eignum,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að um sé að ræða sértryggð skuldabréf tryggð með veði í húsnæðislánum sem bera fasta vexti auk verðtryggingar. Kaupin auki jöfnuð á milli eigna og skulda sjóðsins hvort sem litið er til fjárflæðis eða verðtryggingarjöfnuðar, og hafi jákvæð áhrif á afkomu sjóðsins sem nemur 1.100 milljónum króna á ári.

Stór hluti af uppgreiðslufjármunum orðinn vaxtaberandi

Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um uppgreiðsluvanda Íbúðalánasjóðs, sem felst í því að verðtryggðar eignir sjóðsins hafa löngum verið minni en verðtryggðar skuldir hans. Ástæðan er einkum sú að lántakar hafa mátt greiða upp lán frá sjóðnum, en skuldabréfin sem notuð eru til að fjármagna sjóðinn, svokölluð íbúðabréf, eru hins vegar ekki uppgreiðanleg.

Í tilkynningunni í dag er haft eftir Hermanni Jónassyni, forstjóra Íbúðalánasjóðs, að fjárfestingin sé stórt skref fyrir Íbúðalánasjóðs og að hún muni strax hafa jákvæð áhrif á afkomuna og styrkja efnahag sjóðsins verulega til framtíðar. Með því að fjárfesta óverðtryggðum hluta lausafjár sjóðsins náist að tryggja sjóðnum hærri vexti auk þess að verja hann fyrir áhrifum mögulegra verðbólguskota.

Með kaupum á skuldabréfum ESÍ komi sjóðurinn stórum hluta af uppgreiðslufjármunum sínum aftur í form vaxtaberandi verðtryggðra eigna.