Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,4% á milli september og október. Vísitalan hefur nú hækkað um 4,3% á síðustu þremur mánuðum, 8,2% á síðastliðnum 6 mánuðum og árshækkun vísitölunnar nemur nú 17,1%. Þetta kemur fram í frétt á vef Þjóðskrá.

Undirflokkur vísitölunnar fyrir sérbýli hækkaði um hálft prósent á milli mánaða. Á síðustu tólf mánuðum hefur verð á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 21% samkvæmt vísitölunni.

Meiri hækkun var á fjölbýli í októbermánuði en sá liður hækkaði um 1,6% á milli mánaða og hefur nú hækkað um 15,8% á einu ári.

Ástandið minnir nokkuð á árin 2016 og 2017 þegar alger sprenging var á fasteignamarkaðnum. Á þessum tveimur árum hækkaði vísitala íbúðaverðs um ríflega 30%. Á myndinni hér að neðan má sjá að árshækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu fór yfir 20% á vormánuðum 2017.

Skýringin á snarpri hækkun á þessum tíma var meðal annars sú að þá var íbúðaskortur — eftirspurnin var meiri en framboðið. Var það vegna þess að lítið hafði verið byggt af íbúðum á höfuðborgarsvæðinu eftir hrun og þá sérstaklega í Reykjavík. Á þessum árum var ferðaþjónustan líka að blása út og fjöldi íbúða fór í leigu til erlendra ferðamanna.