Guy de Rothschild gekk á vit feðra sinna á þriðjudag þá 98 ára að aldri. Eins og eftirnafnið afhjúpar þá tilheyrði hann einni valdamestu fjölskyldu síðari tíma og var eins og forfeðurnir umsvifamikill athafnamaður sem þurfti að fást við erfiða andstæðinga sem meðal annars birtust í gervi nasisma og sósíalisma.

Fjármálaveldi Rothschild fjölskyldunnar má rekja til Mayer Amschel Rothschild sem fæddist í gyðingagettóinu í Frankfurt í Þýskalandi árið 1744. Mayer hóf fjármálavafstur í borginni sem gekk vel en lykillinn að hinu mikla fjármálaveldi sem síðar varð fólst í því að hann sendi syni sína til þess að gæta hagsmuna fjölskyldunnar í fimm helstu borgum Evrópu. Þar með var lagður grunnur að hinu mikla fjármálaveldi sem flétti saman hagkerfi álfunar.

Ættföðurinn var frumkvöðull að því leyti að hann áttaði sig á því að upplýsingar eru verðmæti. Hann byggði upp umsvifamikið net sendiboða og heimildamanna sem notuðu bréfdúfur sem komu til hans upplýsingum sem aðstoðuðu hann við fjárfestingar. Staða Rothschild sem meiriháttar fjárfestis varð tryggð á tímum Napóleonstyrjaldanna árin 1813 til 1815.

Hagnaður af stríðsbrölti
Hann fjármagnaði stríðsrekstur breska heimsveldisins auk þess að hafa milligöngu um að koma styrkjum frá því til bandamanna sinna á meginlandinu. Þjóðsagan segir að aðrir fjárfestar hafi fylgst grannt með stöðutökum Rothschild meðan á bardaganum við Waterloo stóð í júnímánuði 1815. Var það hald manna að Rothschild yrði fyrstur til þess að vita hvernig bardaginn fór. Þetta nýtti hann sér og tók að selja hlutabréf sín. Þetta varð til þess að aðrir töldu að Wellington hertogi hafi lotið í lægra haldi fyrir herjum Napóleon. Þeir fylltust skelfingu við þá tilhugsun að Napóleon hefði öll völd í hendi sér og tóku að seldu öll sín hlutabréf og markaðurinn hrundi. Þetta nýtti Rothschild sér og keypti þau hlutabréf sem hinir skelfdu fjárfestar voru að selja og hagnaðist feiknarlega.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.