Iceland Express hefur fækkað ferðum sínum í nú í janúar og á tímabilinu 11. -31. janúar hafa verið felldar niður rúmlega 20 ferðir til Lundúna og Kaupmannahafnar.

Iceland Express hefur flogið á hverjum degi til fyrrnefndra staða auk þess að fljúga 4 sinnum í viku aukaflug til Lundúna og 2 sinnum í viku aukaflug til Kaupmannahafnar.

Þannig flýgur félagið um 90 - 100 ferðir á mánuði til fyrrnefndra staða en sé miðað við sætafjölda fækkar ferðum á umræddu tímabili um 15% samkvæmt upplýsingum frá Iceland Express. Ekki hefur verið fækkað ferðum til Berlína og Varsjár.

„Það má segja að við höfum verið full bjartsýnir á flugtíðni í janúar,“ segir Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express í samtali við Viðskiptablaðið aðspurður um þetta.

„Árið lítur hins vegar vel út, febrúar og mars er vel bókaðir og í raun sumarið líka. En það var illa bókað í janúar. Ég hugsa að það sé að mörgu leyti vegna þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað varðandi skattahækkanir. Fólk hélt að sér höndum en virðist ætla að ferðast í febrúar og mars.“

Matthías segir að mest hafi borið á fækkun bókana hjá Íslendingum í janúar. Hins vegar hafi bókunum Íslendinga fyrir árið í heild fjölgað um 80% milli ára.

Matthías segir jafnframt að reynt verði að finna lausnir hjá þeim viðskiptavinum sem þegar hafa keypt ferðir hjá félaginu. Í flestum tilvikum séu farþegar reiðubúnir að fara á öðrum tíma en í þeim tilfellum þar sem farþegar þurfi að ferðast á ákveðnum tíma verði fundin á því lausn.