Að sögn Matthías Imsland, forstjóra Iceland Express, skoðar félagið nú möguleika á að hefja fraktflug. "Við erum búin að fullvinna viðskiptaáætlun fyrir fraktflug. Við teljum vera svigrúm á þessum fraktmarkaði vegna þeirrar háu verðlagningar sem þar er viðhöfð í dag," segir Matthías í viðtali við Viðskiptablaðið.

"Það er klárlega allt of hátt verð í fraktflugi í dag. Við erum með vél tilbúna, áhöfn og rekstraraðila og þá höfum við einnig kannað landið meðal mögulegra viðskiptavina. Það þar bara að segja "go"! Og þá setjum við allt af stað," segir Matthías.

Aðspurður eftir hverju sé verið að bíða svarar Matthías að vöxturinn verði að vera innan skynsamlegra marka. "Þrátt fyrir að við viljum vaxa viljum við ekki vaxa með ógnarhraða. Við viljum ráða vel við vöxtinn og það liggur í raun ekkert á. Fraktin er stórt stökk og við gerum okkur grein fyrir því," segir Matthías. Hann segir að það sé þó eingöngu tímaspursmál hvenær verkefnið verði sett af stað. "Við komum til með að gera þetta á þeim tímapunkti sem er réttur fyrir okkur. Þegar sá tímapunktur kemur gerum við þetta mjög hratt því að allt er tilbúið," segir Matthías.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu á morgun.