Malcolm Walker, forstjóri Iceland Foods verslanakeðjunnar, hefur staðfest í bréfi  til Steinunnar Guðbjartsdóttur, formanns slitastjórnar Glitnis, að félagið hafi átt 202 milljónir punda í reiðufé á bankareikningum haustið 2008. Með bréfinu fylgja yfirlýsingar nokkurra banka um innistæður félagsins og yfirlýsing lögmanns um afskiptaleysi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar af reikningum félagsins.

Í yfirlýsingu til Steinunnar frá lögmanninum John G. Berry staðfestir hann að Jón Ásgeir Jóhannesson hafi aldrei verið prókúruhafi á neinum bankareikningi í nafni Iceland Foods Group Ltd, eða neinu dótturfyrirtæki þess, þar á meðal Iceland Foods Ltd., né hafi hann haft aðgang að þeim reikningum á nokkurn hátt.

Tilefnið bréfs Walkers er að í gögnum slitastjórnarinnar kemur fram að Steinunn telji Jón Ásgeir Jóhannesson, einn af þáverandi eigendum Iceland Foods, hafa átt eða haft aðgang að fénu, sem samsvarar hátt í 40 milljörðum króna. Í bréfi Iceland Foods kemur fram að  80 milljónir punda hafi verið inni á reikningi hjá Barclays bankanum þann 22. september 2008. Þá hafi 90 milljónir verið á reikningi í Bank of Scotland (nú hluti af The Lloyds Banking Group), 15 milljónir á reikningi í Alliance & Leiscester (nú hluti af Santander), einnig 14,7 milljónir hjá HSBC og 2,8 milljónir punda hjá Bank of Ireland. Samtals gera þetta 202,5 milljónir punda.