Tiltölulega grænn dagur er að baki í Kauphöll Íslands í dag. Hlutabréf 14 félaga hækkuðu í verði en bréf fjögurra lækkuðu. Samtals voru gerð viðskipti með hlutabréf fyrir 2,2 milljarða króna og hækkaði Úrvalsvísitalan um rúmt 1% í viðskiptunum.

Fyrsti viðskiptadagur með hlutabréf í Iceland Seafood var í dag og hækkaði félagið um tæpt hálft prósent í viðskiptum fyrir tæplega 100 milljónir króna.

Mest hækkuðu bréf í Högum eða um rúmt 1,5% í viðskiptum fyrir 121 milljón króna. Félagið átti að birta uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung í dag en það hafði ekki borist fyrir lokun markaða í dag.

Næst mest hækkuðu hlutir í Símanum eða um 1,4% en mikil viðskipti voru með hlutabréf félagsins, sem birti uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung í dag. Samtals voru gerð 23 viðskipti með bréfin fyrir samtals tæplega 900 milljónir króna.

Bréf í Eimskipi lækkuðu mest  eða um 1,2% í afarlitlum viðskiptum eða fyrir eina milljón króna. Hlutir í Origo lækkuðu um 1,1% í viðskiptum fyrir 45 milljónir króna. Þá lækkaði Arion banki um rúmt hálft prósent í viðskiptum fyrir átta milljónir króna.

Velta á skuldabréfa markaði nam 3,7 milljörðum króna í dag. Bróðurpartur viðskiptanna voru með LSS150434 eða fyrir tvö milljarða króna og lækkaði krafan um 5 punkta.