Icelandair mun í vetur fljúga til alls 13 áfangastaða austan hafs og vestan. Að meðaltali verða 35 flug frá Íslandi í viku á tímabilinu frá október til mars.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair en flogið verður til 9 borga í Evrópu og 4 borga í Norður-Ameríku í vetur. Þá kemur fram að áætlun vetrarins er svipuð og var síðasta vetur. Helsta breytingin er áætlunarflugið til og frá Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna sem hefst í júlí.

„Við hrun gengis íslensku krónunnar á síðasta vetri varð mikil breyting á samsetningu farþega okkar,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair í tilkynningunni.

„Mjög dró úr ferðalögum Íslendinga og við sjáum það ekki breytast að ráði fyrr en efnahagsástand lagast og krónan styrkist.“

Birkir Hólm segir að Icelandair hafi aftur á móti náð að auka mjög hlutfall erlendra ferðamanna til Íslands í vélum sínum.

„Það stefnir í nokkuð gott sumar og við teljum okkur geta haldið sama framboði og þjónustustigi næsta vetur og var í fyrra, þrátt fyrir erfitt árferði og þótt langflest flugfélög í nágrannalöndum séu nú að draga mjög saman í starfsemi sinni", segir Birkir Hólm.

Þá kemur fram að Icelandair hafi gripið til margskonar hagræðingaraðgerða til þess að bregðast við breyttu starfsumhverfi.

„Við erum að gera miklar breytingar á skrifstofum okkar en þar hefur starfsmönnum, jafnt stjórnendum og almennum starfsmönnum, fækkað um rúmlega 70 á milli ára,“ segir Birkir Hólm.

„Sú fækkun hefur einkum verið í hópi millistjórnenda og á skrifstofum erlendis, t.d. í Bandaríkjunum nú í sumar, en við höfum með flutningi verkefna til Íslands reynt að verja störf hér á landi."

Þá kemur fram að um 1200 manns starfa nú hjá Icelandair, en mikil árstíðasveifla er í starfsemi fyrirtækisins og eru starfsmenn jafnan mun fleiri á háannatíma á sumrin en á veturna.

„En þótt áætlunarflug Icelandair sé óbreytt hefur mjög dregið úr verkefnum í alþjóðlegu leiguflugi sem áhafnir Icelandair sinna fyrir systurfyrirtæki á því sviði. Við munum því þurfa að segja upp 32 flugmönnum nú fyrir næstu mánaðamót sem voru í starfi hjá okkur á síðasta vetri,“ segir Birkir Hólm í tilkynningunni.

„Við vonum að úr þessum verkefnaskorti í leiguflugi erlendis rætist á næstunni, og að uppsagnirnar þurfi ekki að taka gildi, en staðan í alþjóðafluginu er mjög erfið. Við höfum einnig boðið flugmönnum hlutastörf ef það mætti verða til þess að skapa fleirum atvinnutækifæri yfir vetrarmánuðina. Við gerum ráð fyrir að við þurfum svipaðan fjölda flugfreyja/þjóna og á síðasta vetri og verkefnastaða í viðhaldsþjónustu er góð um þessar mundir vegna erlendra verkefna.“