Icelandair ætlar að hefja flug til Gatwick-flugvallar í Bretlandi og kemur það til viðbótar við flug til og frá Heathrow-velli. Flugið hefst 18. október næstkomandi og stendur fram til 17. apríl á næsta ári. Flogið verður tvisvar í viku, á fimmtudagskvöldum og sunnudagsmorgun.

Fram kemur í tilkynningu frá Icelandair að vélar félagsins fljúgi tvisvar á dag til og frá Heathrow.

Haft er eftir Birki Hólm Guðnasyni, framkvæmdastjóra Icelandair, að Heathrow sé svo vinsæll flugvöllur í alþjóðlegu flugi að ekki fáist þar fleiri lendingarleyfi. Með aukinni eftirspurn eftir flugi til Bretlands hafi verið ákveðið að hefja flug til Gatwick. Þaðan megi svo taka tengiflug til meginlands Evrópu og á fjarmarkaði í Asíu.

Þá segir í tilkynningunni að flugáætlun ársins sé sú stærsta í sögu félagsins.