*

sunnudagur, 16. febrúar 2020
Innlent 8. febrúar 2019 17:12

Icelandair féll um 16%

Markaðsvirði flugfélagsins féll um 8 milljarða króna í viðskiptum dagsins í kjölfar blóðugs uppgjörs.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hlutabréf Icelandair féllu um 15,91% í 316 milljón króna viðskiptum í dag, eftir að félagið tilkynnti í gærkvöldi að það hefði tapað 6,7 milljörðum króna á síðasta ári, og 6,9 milljörðum á síðasta ársfjórðungi.

Heildarviðskipti á aðalmarkaði Kauphallarinnar námu 2,5 milljörðum króna og úrvalsvísitalan lækkaði um 0,73%.

Flest félög lækkuðu í viðskiptum dagsins, en þó öll nema Icelandair heldur lítillega. Næstmesta lækkun dagsins áttu bréf Reita með 2,07% lækkun í 180 milljóna króna viðskiptum, og þar næst komu bréf TM með 1,42% lækkun í litlum 28 milljónum.

Bréf Marel hækkuðu lang mest, um 1,97%, og auk þess var velta með þau margfalt meiri en annarra félaga, rúmir 1,3 milljarðar. Sjóvá var eina félagið sem hækkaði fyrir utan Marel, um 0,33% í 46 milljóna viðskiptum, og bréf Icelandair voru næst-veltumest, en þar á eftir komu bréf Festar með 1,31% lækkun í 240 milljóna króna viðskiptum.

Stikkorð: Kauphöll Icelandair