Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, kynnti í dag skipulagsbreytingar sem gerðar hafa verið á yfirstjórn félagsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.

Þá kemur fram að í nýju skipulagi er skerpt á hlutverki einstakra sviða, framkvæmdastjórum fækkað úr sex í þrjá og boðleiðir einfaldaðar.

Undir stjórn framkvæmdastjóra Icelandair verða innan félagsins þrjú meginsvið:

Framleiðslusvið,sem hefur með höndum stjórn flugrekstrar félagsins, stöðvarekstur og viðhaldsþjónustu. Andri Áss Grétarsson verður framkvæmdastjóri Framleiðslusviðs.

Sölu- og markaðssvið, sem annast allt sölu- og markaðsstarf Icelandair hér á landi og erlendis. Helgi Már Björgvinsson er framkvæmdastjóri Sölu- og markaðssviðs.

Fjármálasvið,sem hefur með höndum fjármálastjórnun Icelandair auk starfsmanna- og upplýsingatæknimála. Hlynur Elísson verður framkvæmdastjóri fjármálasviðs.

Þessir þrír framkvæmdastjórar mynda nýja framkvæmdastjórn félagsins ásamt Birki Hólm Guðnasyni.

Í tilkynningunni kemur fram að allir hafa þeir margháttaða stjórnunarreynslu innan Icelandair og systurfélaga í Icelandair Group.

Andri Áss var framkvæmdastóri fjármálasviðs, Hlynur var fjármálastjóri Icelandair Group og Helgi Már heldur áfram starfi sínu sem framkvæmdastjóri Sölu- og markaðssviðs.

Auk þessara þriggja sviða heyra samskiptamál beint undir framkvæmdastjóra Icelandair, en þeim stýrir Guðjón Arngrímsson.

„Þessar breytingar hafa það að markmiði að ná fram hagræðingu og efla félagið. Í nýju skipulagi er lögð áhersla á hraða ákvarðanatöku og að færa stjórnendur nær daglegum rekstri,“ segir  Birkir Hólm Guðnason í tilkynningunni.

„Það fækkar í  yfirstjórn félagsins um helming og við tökum þannig mið af þeim margvíslegu breytingum sem gerðar hafa verið á starfsemi félagsins að undanförnu.Við byrjuðum að einfalda skipulag félagsins í vor með fækkun millistjórnenda og þetta er liður í þeirri vinnu. Það eru krefjandi en um leið spennandi tímar framundan hjá okkur í Icelandair og ætlum að skipuleggja okkur með það í huga að grípa þau tækifæri sem gefast.“