Stjórn Icelandair Group lagði fram í dag tillögu fyrir aðalfund félagsins, sem haldinn var í dag, að ekki verði  greiddur arður vegna rekstrarársins 2008 og var sú tillaga samþykkt.

Fyrir rúmri viku síðan kynnti Icelandair Group uppgjör ársins en félagið tapaði um 7,5 milljörðum króna á síðasta ári. Þá nam tap fjórða ársfjórðungs um 10,6 milljörðum króna.

Þá var einnig samþykkt heimild til kaupa á allt að 10% af eigin bréfum. Verð bréfanna má hins vegar ekki vera meira en 20% yfir meðalverði þeirra í kauphöll síðustu tvær vikur fyrir kaupin.

Þá var einnig samþykkt tillaga stjórnar félagsins um að lækka stjórnarlaun um 20%. Eftir það munu fá stjórnarmenn 160 þúsund krónur á mánuði, formaður fær 320 þúsund krónur á mánuði og varamenn fá 80 þúsund krónur fyrir  hvern setinn fund.

Þá var að lokum lagt til að KPMG hf. verði   endurskoðunarfyrirtæki félagsins auk þess sem starfskjarastefna félagsins var samþykkt, lítillega breytt frá því í fyrra.