Dótturfélög Icelandair Group fluttu 219 þúsund farþega í september, sem er 8% aukning á milli mánaða. Farþegafjöldinn það sem af er ári hefur þó dregist saman um 7% milli ára og nemur rétt rúmlega 1,6 milljónum farþega.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair Group sem nú sendir mánaðarlega frá sér flutningstölur og spá um EBITDA hagnað.

Þar kemur fram að tekjur félaganna jukust um 7% milli mánaða en hafa aftur á móti dregist saman um 9% á milli ára það sem af er ári.

Icelandair Group segir rekstur samstæðunnar hafa gengið vel í ágúst en samkvæmt óendurskoðuðu uppgjöri var EBITDA 0,5 milljörðum hærri en í ágúst 2008 eða 3,1 milljarður króna.

Þá kemur fram að EBITDA spá Icelandair Group fyrir árið 2009 er óbreytt eða 6,5 milljarðar króna.

„Miðað við núverandi forsendur lítur rekstur samstæðunnar ágætlega út það sem eftir er ársins og er núverandi EBITDA spá mun hærri en upphaflegar áætlanir fyrir árið gerðu ráð fyrir,“ segir í tilkynningunni.