Icelandair Group hefur gengið frá lántöku hjá Deutsche Bank. Lánsfjárhæðin nemur 18 milljónum bandaríkjadala. Lánið er veitt til sjö ára og Deutsche Bank tekur veð í tveimur flugvélum fyrirtækisins. Lánið er nýtt til endurfjármögnunar á óhagstæðari lánum sem hafa verið greidd upp. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair Group til Kauphallarinnar. Í íslenskum krónum er lánið að upphæð rúmlega 2,1 milljarður.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri félagsins segir í tilkynningu það mikið ánægjuefni að hafa gengið frá samningum, ekki síst í ljósi erfiðleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. „Við teljum að aðgengi Icelandair Group að erlendu fjármagni staðfesti að viðskiptalíkan félagsins er traust," segir hann í tilkynningu.

„Afborganir eru vísitölubundnar með hámarki og lágmarki. Kjörin fela því í sér ígildi breytilegra vaxta með vaxtaþaki og vaxtagólfi. Breytingar á undirliggjandi vísitölu hafa áhrif á afborgunarkjör innan fyrirfram skilgreindra marka. Deutsche Bank sér um rekstur og daglega skráningu vísitölunnar sem á sér rúmlega 20 ára sögu og er auðkennd á Bloomberg sem DBPPULSU INDEX,“ segir í tilkynningu frá félaginu.