Icelandair Group hefur gengið frá kaupum á tveimur Boeing 757-200 vélum sem félagið hefur haft á langtímaleigu. Ákveðið var að kaupa vélarnar af leigusala vegna hagstæðra kjara sem félaginu bauðst.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Þar kemur fram að meginhluti kaupverðsins var fjármagnaður með rúmlega 24 milljóna dollara láni til 6 ára.

Vélarnar hafa verið í notkun í millilandaflugi Icelandair og munu halda því áfram.

„Miðað við áætlaðan notkunartíma vélanna þá bæta kaupin afkomu félagsins og á þeim forsendum var ákvörðunin tekin,“ segir Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group, í tilkynningunni.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins voru vélarnar á fjármögnunarsamningum hjá erlendum aðila. Sömu aðilar munu fjármagna kaupin á fyrrgreindum vélum en ekki fæst uppgefið hverjir það eru.

Nú eru tæplega 40 vélar í flugflota Icelandair Group, sem er móðurfélag Icelandair, Icelandair Cargo, Flugfélags Íslands, Loftleidir Icelandic og Smartlynx. Tuttugu vélar eru í eigu samstæðunnar en restin á leigusamningum. Til upplýsinga má geta þess að nú eru fjórtán vélar í flugflota Icelandair en að öllum líkindum verður þeim fjölgað í sextán á næsta ári.

Boeing 757-200 vél í eigu Icelandair.
Boeing 757-200 vél í eigu Icelandair.
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)

Boeing 757-200 vél í eigu Icelandair.