Stjórn Icelandair Group hf. leggur til við aðalfund félagsins að ekki verði greiddur arður vegna rekstrarársins 2010.

Þetta kemur fram í tillögum stjórnar sem bornar verða upp á aðalfundi Icelandair Group eftir viku. Sem kunnugt er nam rekstrarhagnaður félagsins á síðasta ári um 12,6 milljörðum króna en hagnaður eftir skatta og fjármagnsliði nam 1,4 milljarði króna, samanborið við tap upp á 9,6 milljarða árið áður.

Þrátt fyrir þennan hagnað leggur stjórnin til að ekki verði greiddur út arður vegna síðasta ár. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að innan stjórnar félagsins sé þó unnið að arðgreiðslustefnu sem kynnt verður síðar á þessu ári.

Aðrar tillögur sem bornar verða upp er nokkuð hefðbundnar. Lagt er til að ársreikningur félagsins verði samþykktur og þá leggur stjórnin til að þóknanir til stjórnarmanna verði óbreyttar þannig að stjórnarmenn fái 160 þúsund krónur á mánuði, formaður fái 320 þúsund krónur á mánuði og varamenn fái 80 þúsund krónur fyrir hvern setinn fund.

Þá leggur stjórnin jafnframt til við aðalfund félagsins að félaginu verði heimilt að kaupa allt að 10% af eigin bréfum skv. lögum um hlutafélög. Verð bréfanna má ekki vera meira en 20% yfir meðalverði þeirra í kauphöll síðustu tvær vikur fyrir kaupin.