Icelandair Group hefur undirritað samkomulag um hlutafjárviðskipti við meðeigendur sína að flugfélaginu Travel Service í Tékklandi, sem felst í því að eignarhlutur Icelandair Group í Travel Service minnkar úr 80% í 66% af hlutafé félagsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Þar kemur fram að Unimex Group og Roman Vik/GTO, sem fyrir áttu 20% eignarhlut, munu með samkomulaginu kaupa 14% hlutafjár og auka sinn hlut í 34% samtals.

„Með þessu samkomulagi er Icelandair Group að tryggja annars vegar fjármögnun Travel Service og hins vegar treysta samstarfið við meðeigendur okkar, Unimex Group og Roman Vik, framkvæmdastjóra félagsins,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group í tilkynningunni.

„Icelandair keypti 80% af hlutafé Travel Service af þeim á síðasta ári og flugfélagið varð hluti af Icelandair Group á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Það hefur vaxið hratt, afkoma þess verið mjög góð og bókfært verðmæti vaxið frá kaupunum. Það, að viðbættum gengisáhrifum, mun leiða til um það bil 450 milljóna króna sölutaps vegna samningsins í uppgjöri Icelandair Group.“