Hagnaður Icelandair í fyrra nam 66,5 milljónum dala, andvirði um 8,7 milljarða króna, samanborið við 56,4 milljóna dala hagnað árið 2013. Stjórn félagsins leggur til að arður að fjárhæð 2.500 milljónir króna verði greiddar til hluthafa á árinu 2015.

Í ársreikningi kemur fram að hagnaður ársins 2014 fyrir skatta nam 79,9 milljónum dala og jókst um 8,9 milljónir dala eða 12% á milli ára. EBITDA 2014 nam 154,3 milljónum dala samanborið við 143,7 milljónir árið 2013 og rekstrartekjur jukust um 9% á milli ára. Eiginfjárhlutfall 43% í árslok 2014 samanborið við 42% í árslok 2013.

Í tilkynningu er haft eftir Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra félagsins, að afkoma ársins 2014 sé betri en áætlanir stjórnenda gerðu ráð fyrir í upphafi árs og að EBITDA ársins sé við efri mörk síðustu afkomuspár félagsins. Það sé ljóst að margir samverkandi þættir hafa jákvæð áhrif á sterkt uppgjör. Þar megi nefna lækkandi eldsneytisverð, aukna eftirspurn á Norður-Atlantshafsmarkaðinum sem mætt hefur verið með auknu framboði ásamt góðri afkomu í leiguflugi. Veiking evrunnar gagnvart bandaríkjadal hafi haft neikvæð áhrif á rekstur félagsins auk þess sem kostnaður við skoðanir fraktvéla var mun hærri en gert hafði verið ráð fyrir.

Hann segir að gert sé ráð fyrir áframhaldandi arðbærum innri vexti í rekstri Icelandair Group á árinu 2015. Flugáætlun í millilandaflugi verði 14% umfangsmeiri samanborið við árið 2014 og fyrir liggi að veruleg uppbygging muni eiga sér stað í hótelstarfsemi félagsins í miðborg Reykjavíkur. Heilt á litið séu jákvæðar horfur í ferðaþjónustu á Íslandi auk þess sem hann telji hagfelldar horfur í fraktflutningum og leiguflugsstarfsemi á árinu 2015.

EBITDA-spá fyrir árið 2015 hækkar samanborið við árið 2014 og gerir spáin ráð fyrir að EBITDA verði á bilinu 160-165 milljónir Bandaríkjadala. Björgólfur segir í tilkynningunni að lækkun eldsneytisverðs sé sá einstaki kostnaðarliður sem hafi mest áhrif til hækkunar á EBITDA. Mikilvægt sé að árétta að ytri þættir svo sem sveiflur á eldsneytisverði og gjaldeyrismörkuðum og niðurstöður kjarasamninga á vinnumarkaði geti haft töluverð áhrif á afkomu félagsins.“