Icelandair Group hagnaðist um tæpa 22,4 milljónir bandaríkjadala á öðrum ársfjórðungi þessa árs . Á fyrstu sex mánuðum ársins nemur hagnaður félagsins því 7,6 milljónum bandaríkjadala. Á öðrum ársfjórðungi árið 2014 nam hagnaður nær það sama og nú, eða 22,4 milljónum bandaríkjadala, en heildarafkoman fyrstu sex mánuði ársins 2014 nam tapi upp á 4,3 milljónir bandaríkjadala.

„Afkoma á öðrum ársfjórðungi var góð, EBITDA nam 50,3 milljónum USD og jókst um 5,0 milljónir USD samanborið við afkomu annars ársfjórðungs 2014," er haft eftir Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra Icelandair Group.

„Helsta skýringin á góðu gengi félagsins er arðbær innri vöxtur í millilandastarfsemi félagsins. Framboð í millilandafluginu var aukið um 15% á fjórðungnum samanborið við síðasta ár og á sama tíma fjölgaði farþegum um 17%. Sætanýting var góð, nam 81,8% og jókst um 1,8 prósentustig á milli ára.  Þá hefur lækkun eldsneytisverðs á milli ára jákvæð áhrif á afkomuna. Rekstur annarrar starfsemi félagsins gekk einnig vel á fjórðungnum," segir hann jafnframt.

Hagstætt gengi hluti af skýringu

Afkoma Icelandair Group er betri en áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir, en EBITDA-spá félagsins hefur verið breytt vegna uppgjörsins. „Í upphafi árs gáfum við út EBITDA-spá sem nam 160-165 milljónum USD og staðfestum við hana við birtingu uppgjörs fyrir fyrsta ársfjórðung í apríl síðastliðnum.  Rekstur félagsins hefur gengið vel á fyrstu sex mánuðum ársins, auk hagfelldrar þróunar á ytri aðstæðum frá síðasta uppgjöri. Uppfærðar forsendur gera nú ráð fyrir að EUR/USD krossinn verði að meðaltali 1,10 út árið í stað 1,07 sem hefur jákvæð áhrif á reksturinn," er haft eftir Björgólfi vegna uppgjörsins.

Björgólfur segir jafnframt: „Eins hefur bókunarstaða fyrir næstu mánuði í millilandaflugi styrkst umfram væntingar félagsins og hefur það að öðru óbreyttu jákvæð áhrif á afkomu á síðari hluta ársins, þá sérstaklega á afkomu þriðja ársfjórðungs.  Að teknu tilliti til þessara þátta er nú gert ráð fyrir að EBITDA félagsins fyrir árið 2015 verði á bilinu 180-185 milljónir USD.“

Samkvæmt uppgjörinu jukust flutningatekjur um 2%, en heildartekjur drógust aftur á móti saman um 1%. Handbært fé frá rekstri nam 86,7 milljónum dala og eiginfjárhlutfall var 36% í lok júní.