*

mánudagur, 25. janúar 2021
Innlent 22. maí 2020 18:14

Icelandair hástökkvari dagsins

Velta á aðalmarkaði Kauphallarinnar nam milljarði en veltan á skuldabréfamarkaði var þrettán milljarðar.

Ritstjórn

Ellefu félög á aðalmarkaði Kauphallarinnar lækkuðu í viðskiptum dagsins en fjögur hækkuðu. Mest var hækkunin með bréf Icelandair en þau hækkuðu um tæp 5,9% í 28 milljón króna viðskiptum og er gengi bréfanna nú 1,63.

Frekar rólegt var um að litast á hlutabréfamarkaðnum í dag en veltan alls var rétt um milljarður króna. Tæplega helminginn af því má rekja til bréfa Marel en þau hækkuðu um ríflega prósent. Viðskipti með bréf í átta félögum náði ekki einni milljón króna.

Mesta lækkun dagsins áttu Reitir sem fóru niður um 4,64% í 48 milljón króna við skiptum. Þá lækkaði VÍS um 3,61% í 59 milljón króna viðskiptum. Brim lækkaði síðan um tæp 2,9% þar sem 187 milljónir skiptu um hendur. Sjóvá, Reginn og Sýn lækkuðu öll um tvö prósent eða meira og þá lækkaði Kvika um 1,98%.

Hin tvö félögin sem hækkuðu voru Hagar um 0,62% í fimm milljón króna viðskiptum og Arion banki hækkaði lítillega í afar litlum viðskiptum. OMX10 vísitalan hækkaði um 0,39% í dag.

Á skuldabréfamarkaði var hins vegar öllu meiri hamagangur en veltan þar var rétt tæplega þrettán milljarðar króna.

Stikkorð: Icelandair