Ástæða þess að ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hóf rannsókn á meintri ríkisaðstoð við Hörpu er kvörtun forsvarsmanna Icelandair Hotels til ESA. Þetta herma heimildir Viðskiptablaðsins.

ESA tilkynnti í síðustu viku að hafin væri formleg rannsókn á hugsanlegri ríkisaðstoð við tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu. Von er á endanlegri niðurstöðu rannsóknarinnar á næstu fjórum vikum.

Bráðabirgðaniðurstaða ESA er sú að um ríkisaðstoð sé að ræða sem ekki geti að fullu samræmst ákvæðum EES-samningsins. ESA telur að ekki sé tryggður fjárhagslegur aðskilnaður á menningarstarfsemi frá starfsemi í samkeppnisrekstri.

„Þeir [ESA] eru ekki fullvissir um að það sé nægilegur aðskilnaður milli ráðstefnurekstrar og annars rekstrar í húsinu. Afleiðingin getur ekki verið önnur en sú að við þurfum að sýna fram á að þessi aðskilnaður verði eða sé betri,“ segir Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu. Hann bendir á að ákvörðun ESA fela í sér að málið fari úr frumrannsókn og í formlega rannsókn. Það gefi fleirum, meðal annars þriðja aðila, tækifæri á að koma fram athugasemdum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.