Nokkuð líflegt var yfir viðskiptum dagsins á aðalmarkaði í Kauphöll Nasdaq á Íslandi en heildarvelta viðskipta dagsins nam 2,8 milljörðum króna. OMXI10 úrvalsvísitalan lækkaði þó um 0,13% og stendur nú í 2.344,71 stigum.

Eftir að hafa leitt hækkanir í gær lækkaði gengi hlutabréfa flugfélagsins Icelandair mest í viðskiptum dagsins, eða um 3,42% í 206 milljóna króna viðskiptum. Næst mesta lækkunin varð á gengi bréfa Marels, en bréf félagsins lækkaði um 1,525 í 362 milljóna króna veltu.

Gengi hlutabréfa fasteignafélagsins Reita hækkaði mest í viðskiptum dagsins, eða um 2,22% í 160 milljóna króna veltu.

Annan daginn í röð var mesta veltan með hlutabréf Arion banka, en velta viðskipta með bréf bankans á nýloknum viðskiptadegi nam 781 milljón króna. Gengi hlutabréfa bankans hækkaði um 2,02% í viðskiptum dagsins. Næst mest velta var með bréf Marels.