Verð á hlutabréfum í Icelandair lækkaði um 10,24% í fyrstu viðskiptum í dag og stendur nú í 8,33 krónum á hlut en uppgjör fyrirtækisins var birt eftir lokun markaða í gær líkt og Viðskiptablaðið greindi frá.

Icelandair var rekið með 86,5 milljón dollara tapi, jafnvirði 10,7 milljarða króna á fyrri helmingi ársins. Versnar afkoman um 34 milljónir dollara á milli ára. Á síðasta ársfjórðungi, frá apríl og út júní nam tapið 40,9 milljónum dollara miðað við 25 milljón dollara tap á sama tímabili í fyrra.

Í uppgjöri félagsins kom jafnframt fram að Icelandair Group áætli að kyrrsetning Boeing 737 Max flugvélanna muni kosta félagið 15-17 milljarða króna á þessu ári.