Gera má ráð fyrir að á næsta ári verði flogin um 154 flug á viku frá Norðurlöndunum til Bandaríkjanna. Af öllum þeim flugfélögum sem fljúga á milli er áætlað að Icelandair verði með flestar ferðir á milli, eða rúmlega 40 á viku.

Þetta kemur fram í umfjöllun norska blaðsins Dagens Næringliv þar sem fjallað er um ferðir og flug á milli Norðurlandanna og Bandaríkjanna næsta sumar.

Í umfjöllun blaðsins kemur fram að aldrei fyrr hafi flugumferð frá Kaupmannahöfn, Stokkhólmi, Osló, Helsinki og Keflavíkur til Bandaríkjanna og áætlað er næsta sumar.

Norska blaðið segir að hingað til hafi SAS nánast haft þennan markað í höndum sér. Þá hafi bandarísku flugfélögin verið að auka flug á milli Bandaríkjanna og Norðurlandanna en nú sé því þannig fariðað Icelandair verði það flugfélag sem fljúgi hvað mest á milli sé miðað við sumaráætlun félagsins næsta sumar.

Á meðan Icelandair flýgur rúmlega 40 sinnum á viku á milli Norðurlandanna og Bandaríkjanna (með viðkomu í Keflavík) flýgur SAS um 35 ferðir á milli. Sé hins vegar horft til sætaframboðs er það SAS sem býður flest flugsæti á milli Norðurlandanna og Bandaríkjanna. Á meðan Icelandair notar Boeing 757-200 vélar notar SAS ýmist Airbus 330 eða Airbus 340 vélar, sem eru nokkuð stærri en Beoing vélar Icelandair, í Bandaríkjaflug sín.

En það er hörð samkeppni á þessum markaði. Hægt er að fara frá Norðurlöndunum til Bandaríkjanna með bandarísku félögunum Continental, Delta Air Lines og US Airways auk Finnair, Icelandair, Iceland Expressn og SAS. Þá segir blaðið að bandaríska félagið American Airlines muni að öllum líkindum hefja beint flug á milli JFK flugvallar í New York og Osló næsta sumar.