Hvert hlutabréf í Icelandair er virði 2,7 króna, samkvæmt verðmati Jakobsson Capital, en markaðsverð er um 0,9 krónur. Samkvæmt verðmatinu er virði Icelandair því um 78 milljarðar króna en markaðsvirði félagsins er um 28 milljarðar. Fram kemur að „óvissan er algjör“ enda ógerningur að spá um framþróun veirunnar. Brýnt er fyrir lesendum greiningarinnar að verðmatið er einungis ein sviðsmynd af mörgum sem gætu komið upp.

„Uppgjör Icelandair á þriðja ársfjórðungi bendir til að tekjur félagsins muni ekki verða í samræmi við það sem lagt var upp með fyrir útboð félagsins í september. Á móti kemur að tölur um rekstrarkostnað benda til að sveigjanleiki sé meiri og vel hafi gengið að ná rekstrarkostnaði niður,“ kemur fram í verðmatinu. Enn fremur að þegar farið er yfir helstu rekstrarþætti Icelandair sé lítill samanburður „enda rekstur félagsins eins og svart og hvítt fyrir og eftir Covid.“

„Reikningshaldslegt runk“ og eignfærsla tekjuskatts

Eins og áður hefur verið greint frá nam rekstrarhagnaður (EBIT) Icelandair 3,5 milljónum dollara, jafngildi 494 milljóna króna, á þriðja ársfjórðungi. Í rekstraráætlun félagsins hafði verið gert ráð fyrir um tíu milljóna dollara rekstrarhagnaði. Hins vegar veltir greinandi Jakobsson Capital fráviki frá rekstraráætlun lítið fyrir sér, „miklar sveiflur eru í flugrekstri og reksturinn sjaldan staðist rekstraráætlanir.“

Bent er á að bætur Boeing hafi áður farið í gegnum rekstrarreikning og haft jákvæð áhrif á rekstrarafkomu. Nú fara þær að stærri hluta í gegnum sjóðstreymi félagsins sem lægri fjárfesting, því hafi rekstrarniðurstaðan verið nærri rekstraráætlun, samkvæmt fjármálastjóra Icelandair.

Icelandair hagnaðist um 38 milljónir dollara á þriðja ársfjórðungi, jafnvirði 5.365 milljóna króna. Segir greinandi Jakobsson Capital að endurskilgreining á afleiðusamningum hafi vegið þungt. Um er að ræða „reikningshaldslegt runk.“ „Jafnframt var skattalegt tap eignfært á þriðja ársfjórðungi en mikið tap hefur myndast á rekstri síðustu mánuði.“ Greinandi segist horfa til rekstrarhagnaðar (EBIT) við greiningu, slíkt gefi bestu myndina af rekstrinum.

Fram kemur að á þriðja ársfjórðungi hafi tekjusamdráttur milli ára numið 81% en kostnaðarsamdráttur verið 83%. Kostnaðarsamdráttur vegna flugvélaeldsneytis hafi verið meiri en samdráttur í tekjum af flugi og að samdráttur í lendingargjöldum og afgreiðslu var jafn samdrætti í tekjum af flugi. Minni samdráttur var í launum.

Helmingshækkun frá fyrra mati

Síðan síðasta verðmat Jakobsson Capital á Icelandair birtist hafa borist fleiri gögn frá fyrirtækinu. Kemur fram að „fullmótuð“ rekstraráætlun, efnahagsreikningur og sjóðstreymi hafi borist og því þurfi ekki að geta jafn mikið í eyðurnar.

Stærstu breytingarnar í rekstrarspá Icelandair frá eldra verðmati eru tengdar fjárfestingu. Fram kemur að fjárfesting hafi verið óvenjulega lág síðast og var bætt við fjárfestingu frá fyrri áætlun. „Einhver gæti haldið að hærri forsendur um fjárfestingu lækkuðu verðmat mikið. Það er þó ekki svo einfalt þar sem mikil skattspörunaráhrif myndast við að kaupa vélar á kaupleigu,“ segir greinandi. Spá um breytingu á veltufé hefur einnig verið endurskoðuð sem hefur jákvæð áhrif á verðmatið.

Niðurstaðan er sú að samkvæmt greiningu Jakobsson Capital er virði Icelandair 557 milljónir dollara. Síðasta verðmat var 378 milljónir dollara sem er 47% hækkun. „Það er mikil hækkun í prósentum en lítil hækkun í tölum,“ segir í verðmatinu. „Örlitlar breytingar á forsendum hjá jafn stóru félagi hækkar virðið um tugi milljónir dollara og tugi prósenta þegar verðmat er lágt.“

Lesendum verðmatsins er bent á að mjög mikil áhætta felst í kaupum á Icelandair og að næmisbreyting sýni að örlitlar breytingar á forsendum hafi mikil áhrif á niðurstöðuna.