Farþegar Icelandair í millilandaflugi voru yfir 500.000 í nýliðnum júlí, en farþegafjöldinn var um 89% af fjöldanum í júlí árið 2019. Þetta kemur fram í mánaðarlegum flutningatölum Icelandair sem birtar voru í Kauphöll rétt í þessu. Þetta er í fyrsta sinn sem farþegafjöldi í millilandaflugi fer yfir hálfa milljón í einum mánuði frá háannatíma árið 2019

Í heildina flutti félagið 529 þúsund farþega bæði í innanlands- og millilandaflugi, samanborið við 219 þúsund í júlí í fyrra og 431 þúsund í júní 2022. Millilandafarþegar voru 504 þúsund í mánuðinum, samanborið við 195 þúsund í júlí 2021 og 407 þúsund í júní 2022. Tengifarþegar voru 217 þúsund eða um 43% af heildarfjölda millilandafarþega.

Í tilkynningu segir að talsverðar raskanir hafi orðið í leiðakerfinu í júlí vegna krefjandi aðstæðna á flugvöllum víða erlendis, og hafi stundvísi þannig verið 64%. Hins vegar var sætanýtingin góð hjá félaginu í júlí, en hún var 89,6% í millilandaflugi samanborið við 70,4% í júlí 2021.

Fjöldi farþega í innanlandsflugi var um 25 þúsund samanborið við 24 þúsund í júlí 2021. Sætanýting í innanlandsflugi var 74,5% samanborið við 76,5% í júlí 2021.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Það er ánægjulegt að sjá þann mikla árangur sem starfsfólk Icelandair hefur náð við að byggja starfsemina upp í krefjandi umhverfi í kjölfar heimsfaraldursins. Nú náðum við þeim áfanga að flytja yfir hálfa milljón farþega í fyrsta sinn frá því í ágúst 2019 og er farþegafjöldinn kominn upp í hátt í 90% af því sem var fyrir faraldur. Þá er sætanýtingin eftirtektarverð en hún er ein sú mesta frá upphafi í einum mánuði. Eftirspurn er og hefur verið mikil og ljóst er að mikil uppsöfnuð ferðaþörf er til staðar. Þá hefur sala á Saga Premium sætum gengið vel. Allt er þetta til marks um að leiðakerfið er í góðu jafnvægi og að þær aðlaganir sem við höfum gert á því samhliða árangursríkri tekjustýringu og öflugu sölu- og markaðsstarfi hafa skilað settu marki.“