Í fyrsta sinn frá því í aprílmánuði mælist íslenskt flugfélag það stundvísasta af þeim sem eru með áætlunarflug frá Keflavíkurflugvelli.

Tekur Icelandair við af SAS sem stundvísasta flugfélagið í skoðun Dohop á tölum Isavia um stundvísi þeirra fjögurra flugfélaga sem voru með mest af áætlunarflugi frá vellinum.

Wow air óstundvísast

Voru um 78% áætlaðra flugferða Icelandair á réttum tíma í október en um 75% alls flugs var á áætlun í mánuðinum. Einnig hefur meðaltöf í mínútum lækkað en bæði voru færri tafir á áætlunum og þær voru mun styttri en síðustu tvo mánuði.

Undanfarna mánuði hafa hins vegar Air Berlin, easyJet og SAS skipst á að vera stundvísast. Hins vegar var Wow air óstundvísasta flugfélagið í október með 69% sinna fluga á réttum tíma, þegar heildarstundvísi er skoðuð, það er bæði komu- og brottfarir.