Icelandair var rekið með 3,9 milljarða króna tapi á fyrstu þremur mánuðum ársins, eða 30,1 milljón dollara á fyrstu miðað við 30,8 milljarða króna tap á fyrstu þremur mánuðum síðasta árs, sem skýrðist fyrst og fremst af áhrifum faraldursins.

Heimsfaraldurinn heldur áfram að hafa mikil áhrif á reksturinn en sætaframboð var 92% minna en fyrir ári. Heildartekjur félagsins lækka um 73% milli ára og námu 7,3 milljörðum króna. Þá var rekstartap upp á 5,9 milljarða króna en var 26,7 milljarðar króna fyrir ári.

Eiginfjárhlutfall félagsins var 23% í lok fjórðungsins. Í uppgjörstilkynningu er bent á lausafjárstaða félagsins hafi numið 35,8 milljörðum króna í lok fjórðungsins en þar af nam handbært fé og lausafjársjóðir 14 milljörðum króna.

Icelandair segir að bókunarstaðan sé enn veik á öðrum ársfjórðungi. Þó er gert ráð fyrir að flug fari að aukast á ný frá og með öðrum ársfjórðungi, framboð verði aukið enn frekar frá þriðja ársfjórðungi og miðað við núverandi bókunarstöðu séu horfur fyrir fjórða ársfjórðung góðar. Þá hafi markaðsherferðir félagsins í Bandaríkjunum haft jákvæð áhrif á bókanir til Íslands og munu jafnframt opna á tækifæri á flugmarkaðnum yfir Atlanshafið.

Horfur fraktflutningarekstur félagsins séu jafnframt góðar. Félagið gefur hins vegar ekki út afkomuspá fyrir árið 2021 vegna óvissunar í rekstrinum.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Áhersla okkar á markvissa leiðakerfisstýringu og öflugt kostnaðaraðhald, ásamt góðum árangri í fraktflutningum, skilaði ásættanlegri rekstrarniðurstöðu þegar tekið er tillit til áhrifa COVID-19 faraldursins á uppgjör fyrsta ársfjórðungs. Þá sjáum við jákvæð teikn um aukið umfang í innanlandsfluginu en samþætting þess og alþjóðaflugsins mun stuðla að sterkara og skilvirkara flugfélagi og betri þjónustu við farþega. Þrátt fyrir áframhaldandi neikvæð áhrif faraldursins á starfsemi félagsins á síðustu vikum erum við bjartsýn á að geta aukið flugið jafnt og þétt núna í öðrum ársfjórðungi og bætt svo í framboðið frá þriðja ársfjórðungi þessa árs. Framvinda bólusetninga, sérstaklega á ákveðnum mörkuðum eins og í Bandaríkjunum, og möguleg aflétting ferðatakmarkana í Evrópu fyrir bólusetta ferðamenn, fela í sér jákvæð skref.

Það verða mikil tækifæri fyrir Ísland og íslenska ferðaþjónustu þegar markaðir opna á ný og hefur eldgosið á Reykjanesskaga vakið enn meiri athygli á Íslandi sem áfangastað að undanförnu. Við erum tilbúin að auka flugið um leið og ástandið í heiminum batnar en sveigjanleiki leiðakerfis Icelandair og öflugir innviðir félagsins gera okkur kleift að geta brugðist hratt við breytingum á mörkuðum okkar. Þar að auki munu Boeing 737 MAX vélar félagsins, sem við höfum tekið aftur í rekstur, styrkja leiðakerfið enn frekar. Þær eru bæði hagkvæmari og umhverfisvænni kostur og geta opnað tækifæri fyrir félagið á nýjum mörkuðum.

Þá eru horfur í fraktflutningum áfram góðar. Nýlegar fjárfestingar okkar í fraktflota félagsins styðja við markmið okkar um að auka umsvif félagsins á þessu sviði á okkar helstu mörkuðum og á sama tíma styrkja Ísland sem tengimiðstöð fyrir fraktflutninga milli Evrópu og Norður Ameríku eins og við höfum gert með góðum árangri í farþegafluginu. Við erum í góðri stöðu til að takast á við áframhaldandi óvissu og á sama tíma grípa þau tækifæri sem framundan eru þökk sé útsjónarsemi og dugnaði starfsfólks okkar.“